Færsluflokkur: Lífstíll
2.1.2013 | 13:25
Nú árið er liðið....
í aldanna skaut.....
Ég er ekki ein af þeim sem tárfella um áramót. Þvert á móti, ég tek nýju ári fagnandi. Lít á þessi merku tímamót sem tækifæri til að bæta mig og lagfæra það sem ég er fær um. Nýtt ár er upphaf að betra lífi og ég stjórna því sem ég get en læt æðri máttarvöld og englana mína um allt hitt. Sumu ráðum við ekki, það er bara þannig og nauðsynlegt að hafa það á bak við eyrað. Það er einnig hollt að hafa það í huga að stundum eru breytingar til batnaðar, það hef ég reynt s.l. ár og allt gott um það að segja. Stundum er lífið erfitt og skítt en þá er mikilvægt að skoða allt það góða sem við höfum og kunna að meta það
Það er einmitt orðið Þakklæti sem er mér efst í huga þessa dagana. Í kringum mig er frábært fólk. Maðurinn minn, sem er einstakur. Fjölskyldur okkar, gamlir, góðir og traustir vinir og frábærir vinnufélagar í ritverinu á menntavísindasviði í H.Í. Allt þetta fólk er dýrmætt og ég hugsa um það á hverjum degi hvað ég er heppin að þekkja þau öll. Á síðasta ári bættust enn fleiri í hópinn þegar við hjónin tengdumst skemmtilegum félögum í vélhjólaklúbbnum Landvættir og mökum þeirra
Það sem gerðist á síðasta ári er í stuttu máli eftirfarandi: Ég fékk vinnu, sem var virkilega kærkomið eftir atvinnuleysi í 18 mánuði. Í haust bættist svo við frekari ábyrgð og meiri vinna m.a. við kennslu, nokkuð sem ég kann vel að meta og hlakka til að halda áfram. Strákarnir okkar kláruðu báðir stúdentspróf, annar í vor, hinn núna skömmu fyrir jól og ég er svo endalaust stolt af þeim. Ég smitaðist af vélhjólabakteríunni og prófaði í fyrsta sinn að sitja aftan á hjá bóndanum, sem hnakkaskraut. Góð vinkona var svo sæt að lána mér hjálm og galla, sem ég hafði ekki náð að eignast og gaf mér tækifæri til að vera með. Fyrstu ferðirnar voru farnar um Hvítasunnuna, stutt hjólaferð um Vatnsleysuströndina og Grindavík og mótorhjólamessan í Digraneskirkju degi síðar. Fleiri ferðir voru farnar og nú bíð ég eins og allir hinir eftir vorinu svo hægt verði að fara fleiri skemmtilegar ferðir. Hef nú þegar eignast buxur og hjálm, það sem upp á vantar kemur síðar Sjálft mótorhjólaprófið verður tekið seinna. Ég komst að því að ég verð víst ekki fullgild mótorhjólagella fyrr en það verður tekið. En það er ekki á dagskrá alveg á næstunni
Síðustu tvö ár hef ég leikið mér að því að stíga út fyrir rammann og gera það sem hefur reynst erfitt en þroskandi. Í stuttu máli sagt hefur það gengið mjög vel. Nú er komið að einu slíku verkefni. Ég velti því fyrir mér hvort ég á að deila með ykkur því sem til stendur, ætla að hugsa það aðeins betur. Meira um það síðar
Gleðilegt ár, ekki gleyma að þakka fyrir það sem við höfum. Hamingjan flest ekki í því að fá allt sem við viljum heldur að vilja það sem við fáum og kunna að meta það
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2012 | 12:05
Hvað hvetur okkur áfram ?
Það er líklega eins misjafnt og við erum mörg. Að sjálfsögðu fer það líka eftir því hvert markmiðið er, ekki satt
Fyrir mína parta eru það afrek þeirra sem stefna að því að bæta heilsu sína, hvernig og hversu vel þeim gengur að keppa að sínum sigrum. Þættirnir um þá sem missa mest, The Biggest Looser hafa oft verið gagnrýndir fyrir margt, t.d. hversu mikið þyngdartapið er sem fólk þarf að missa og oftar en ekki er lögð áhersla á að missa sem mest í stað þess að skoða aðra þætti s.s. fituprósentu og ummál. En fyrir mig er keppnisandi og elja þeirra, sem taka þátt og ekki síst þeirra sem komast lengst, sem hvetur mig áfram. Það eru ekki einungis tölur á vigt sem segja það sem segja þarf varðandi árangur heldur líka úthald og þrautsegja í lausn verkefna og þrauta sem þau leysa. Þau verkefni reyna oft á hugann og það sem hann getur fengið okkur til að gera....... eða gera ekki, ef út í það er farið. Ég hef reynt það á eigin skinni. Gott dæmi um það er þegar ég fer að versla í matinn og ákveð að kaupa EKKI ákveðnar vörur sem ég veit að ég og fólkið mitt höfum ekki gott af. Ef ég fer inní búðina með þær hugsanir í mínum rauðhærða kolli, tekst mér að koma heim án þeirra. Svo einfalt er það. Ég einfaldlega geng framhjá hillunum og sé ekki þetta dót. Prófiði bara, svínvirkar.
Þessa dagana er spennandi að fylgjast með keppendum á Ólympíuleikunum. Síðasta sunnudag og aftur í dag fylgdist ég með litlum og fisléttum lyftingaskonsum. Þar eru fílhraustar og flottar stelpur sem aðeins eru í kringum 50 kg sjálfar að lyfta tvöföldum eigin líkamsþunga. Stundum rúmlega það. Það þarf enginn að segja mér að hugurinn fylgi ekki með í þessum afrekum..... Bara það að horfa á þessar flottu skonsur hvetur mig til að halda áfram að lyfta þungt í vetur og það verður sko gert, alveg sama hversu mikið verður að gera í námi og vinnu. Lyftingaæfing brennir líka fitu og styrkir ef vel er gert.
Ég les gjarnan blogg fólks sem berst áfram, sumir hafa sigrað, aðrir eru á góðri leið með að ná sínum markmiðum og enn aðrir eru á svipuðum stað og ég. Fremstar í flokki eru hlaupaskutlur, Herbalifedísir og hún Ragga nagli, sem er svo flott að það hálfa væri rúmlega of mikið. Hún er líka snillingur í að hvetja áfram og stuða mannskapinn, það veitir stundum ekki af. Pistlarnir hennar á Heilsupressunni eru stundum á við blauta og drulluga gólftusku beint á trýnið en stundum er það bara það sem þarf. Það virkar á mig, það er eitt sem víst er
Með því að taka saman það sem hefur hjálpað öðrum, afrek þeirra og aðferðir, sem virka fyrir mig hvetja mig áfram.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.7.2012 | 13:49
Sá á fund sem finnur....
eða hvað ?
Ég var á ferð í Vestmannaeyjum fyrir stuttu, átti þar yndislegan dag með góðu fólki, svo sem ekki í frásögur færandi. Nema hvað frúin keypti sér mynjagrip, forláta innkaupapoka sem hægt er að brjóta saman þannnig að lítið fari fyrir honum. Þægilegt þegar maður er á ferðinni og þarf að skreppa í búðina. Pokinn er ekki framleiddur í Eyjum en meiningin var að hann yrði skemmtileg minning um minnisstæðan dag.
Í síðustu viku, n.t.t. miðvikudaginn 18. júlí var ég á ferðinni í Borgarnesi, sem oftar, skrapp í Bónus til að kaupa lítilræði og hafði pokann góða með, stakk honum í jakkavasann. Þegar ég var komin að kassanum og ætlaði að tína vörurnar í pokann var hann horfinn. Til þess að tefja nú ekki aðra viðskiptavini greiddi ég fyrir vörurnar og plastpoka sem ég ætlaði einmitt að spara mér og fékk að geyma góssið hjá kassadömunni. Ég leitaði um alla búð en ekki fannst pokinn minn Ég spurði starfsmann hvort einhver hefði komið með pokann en svo var ekki. Kassadaman lofaði að kanna málið og ég sagðist verða í sambandi. Tveimur dögum síðar var ég aftur á ferðinni í Bónus í Borgó og spurði að sjálfsögðu um pokann minn. Starfsfólkið var ekkert nema elskulegheitin og margir vissu greinilega um dularfulla pokahvarfið en því miður, pokinn minn finnst ekki.
Ég ætla ekki reyna að lýsa því hvað ég er sár. Hvað fær fólk til að slá eign sinni á það sem það á ekki ?
Sjálf hef ég lent í að finna hluti sem aðrir eiga og tekist að koma þeim til skila. Ég hef líka endurheimt hluti sem ég hef tapað.
Ef þú lesandi góður sérð bláann innkaupapoka úr plasti, með litríkum áletrununum og myndum á ensku og hægt er að brjóta saman og smella með tveimur litlum böndum, veistu um hvað ég er að tala. Það er mynd af nákvæmlega eins poka aðeins neðar á síðunni
Það sem við finnum hefur einhver annar átt, jafnvel unnið fyrir hörðum höndum, fengið að gjöf og tengist jafnvel góðum minningum.... Reynum að finna eigandann ef þess er nokkur kostur. Sá sem fann pokann minn hafði tök á því að koma honum til starfsmanna Bónus, en kaus að gera það ekki
Heiðarleiki er mannkostur sem aldrei fellur úr gildi, gleymum því ekki
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2012 | 19:51
Markmið..
eru nauðsynleg ef ná á árangri. Það gildir um svo margt í lífinu og þar á meðal líkamsrækt. Það er líka nauðsynlegt að umbuna sjálfum sér þegar markmiðinu er náð. Ég hef verið dugleg við það og þegar ég var í náminu mínu í KHI umbunaði ég mig alltaf með spennandi bók eftir prófatarnir. Í dag hef ég sett mér markmið varðandi þyngdartap og skipt þeim kílóafjölda niður í skref. Hvert skref eru 5 kg og þegar þeim er náð er haldið uppá það. Þegar ég næ fyrsta markmiðinu, sem nálgast óðum. mun ég gera eitthvað fyrir sjálfa mig og leyfa e.t.v. fleirum að njóta með. Ég hef skipulagt hvað hvert skref gefur sem umbun og er orðin býsna spennt að vinna að þeim og njóta. Hvert kg er mikilvægt og 5 kg eru stór skref sem ber að fagna. Meira um það síðar. Umbunin hvetur mig áfram og ég veit að þannig er um fleiri. Ég er kannski eins og asninn sem eltir gulrótina og ef það er þannig, þá það Þetta kerfi virkar fyrir mig.
Auðvitað á ég mína daga þar sem ég nenni alls ekki að hreyfa mig en þeir eru nú ekki margir núorðið. Stunum ímynda ég mér að á öxlunum mínum sitji tveir álfar. Annar er klæddur hlaupagalla og íþróttaskóm og er tilbúin að skella sér í ræktina eða út að skokka/labba/lyfta/hjóla. Sá er hvetjandi og er óþreytandi að benda mér á þá staðreynd að mér líður svo mikið betur þegar ég hreyfi mig. Fyrir utan þá staðreynd að magtaræðið er mun betra þegar ég hreyfi mig. Hinn álfurinn eða púkinn öllu heldur, er í gömlum náttbuxum og slitinni peysu og liggur ferkar en situr í leti sinni með óhollustu í annarri og fjarstýringuna í hinni. Honum er oftar en ekki hrint niður af öxlinni, stundum reynir hann að príla upp en honum reynist það erfitt. Auðvitað koma dagar þar sem púkinn fær að ráða en málið er bara að mér líður svo miklu betur þegar líkamsræktin er stór hluti af daglega lífinu
Fjölbreytt hreyfing og að viðkomandi hafi áhuga og ánægju af þeirri hreyfingu er lykillinn að árangri. Ekki má heldur gleyma mataræðinu sem skipar stórt hlutverk. Ég hefur notað svokallað nammidagakerfi síðustu mánuði. Mínir nammidagar eru oftast laugardagar, tók þann dag með trompi í gær. Ekki var laust við samviskubit og þungan rass í morgunn og til að vinna á því var góðum hluta dagsins varið í göngu og skokk í fallegu Heiðmörkinni. Auðvitað á maður að njóta nammidagsins, til þess er hann, en mér fannst bara að sveitti hammarinn og fáu frönsku kartöflur sem í minn munn og maga fóru gera mig bara þunga og lata. Kannski vegna þess að ég er óvön að borða svona mat
Skellti mér í góða fjallgöngu í gær. Gekk á Úlfarsfellið með góðri vinkonu og það var skemmtilegt. Mátulega erfitt þegar maður hefur ekki gengið á fjöll lengi. Nú langar mig mest til að fara á Helgafellið og Esjuna sem fyrst. Hver veit, kannski næ ég að draga eiginmanninn eða einhvern annan með mér í sumarfríinu.
Heilsaði uppá Viktoríu í gær. Í stuttu máli sagt þá var engu tauti við hana komandi, engin breyting frá síðustu mælingu viku áður. Hún mun því fá stutt frí. Ég finn hvernig fötin passa betur, keypti mér flík í síðustu viku og hún var í minna númeri en ég er vön að kaupa. Það segir mér meira en tölur á baðvigt. Þrek og úthald eykst og mér líður betur. Það eru góða fréttir og helstu kostir þess að hreyfa sig reglulega og af krafti ásamt því að huga að mataræðinu
Verkefni næstu vikna er að ná betri tíma í 10 km skokkinu. Svo má ekki gleyma því að njóta þess að vera til......
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2012 | 11:15
Allt gott að frétta....
af mér og Viktoríu vinkonu minni. Hún á samt stundum erfitt með að stilla sig og fíflast út í eitt. En síðustu vikur hefur hún bara sýnt góðar tölur og býsna stutt í að ég nálgist langþráði takmark, nefninlega að komast niðurfyrir töluna 80
Ég er búin með tímann hjá einkaþjálfaranemanum mínum, sem þreytir sitt bóklega lokapróf á morgun, veit að hún á eftir að rúlla því upp. Mælingarnar sem gerðar voru í síðustu viku komu á óvart, sumt stóð í stað líkt og fituprósenta og BMI en sentimetrarnir fuku, sérstaklega af lærum og mjöðum. Ég hef alltaf sett fyrirvara við BMI niðurstöður þegar ég lyfti, vöðvar eru jú þyngri en spekið
Síðustu helgi fórum við hjónin í bústað og þar var slakað á. Ég leyfði mér einn lítinn Coronabjór, sem ég kláraði reyndar ekki.... gamlan sofnaði bara frá hálfdrukkinni flösku, alveg búin á því eftir sólbað á pallinum. Svo var auðvitað rauðvín með grillinu og smá nammi en allt var þetta borðað með góðri samvisku og án eftirsjár enda hóflega skammtað. Keypti dýrindis brauð í Mosfellsbakarí og sjúklega góða osta og sultu, nokkuð sem ég borða bara um helgar og nýt hvers bita. Gerði reyndar þau stóru mistök að sleppa þvi að taka með mér hlaupaskó og föt...... langaði svo sárlega út að skokka á sunnudeginum. Þetta kemur ekki fyrir aftur
Horfði á tvo þætti af Biggest Looser í boði Skjás 1, þeir gleymdu að trufla og er ég þeim mjög þakklát. Það er eitthvað við þessa þætti sem mér finnst áhugavert, ekki það að þyngdartap þátttakenda er fáranlega mikið og kröfurnar miklar. En samstaðan, áhuginn og árangurinn í lokin hvetja mig áfram ásamt góðum ráðum frá þjálfurum. Ef ég hefði kost á því að fara í svona ræktarbúðir í nokkrar vikur með hörkuþjálfurum og aðhaldi væri ég ekki lengi að ná af mér þessum 10.5. kg sem enn sitja sem fastast. Væri ekki verra ef búðirnar væri á fallegum stað þar sem hægt væri að skokka, skoða og njóta. California, Maine, Vermont eða Colorado væri alveg kjörið fyrir mig....já eða bara hérna heima á Fróni....
Fór í langan skokktúr í gær, hlaupaúrið var skilið eftir heima þar sem ég hafði gleymt að hlaða það en ég skokkaði í 80 mín og það eru ca 8 - 10 km. Fer þessa leið aftur í næstu viku og mæli nákvæmlega. Naut þess að vera úti og leið bara vel á eftir......
Á morgun er Kvennahlaupið og þá ætla ég að skokka 5 km
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.6.2012 | 11:04
Í góðum málum..
og árangur síðustu vikna lætur ekki á sér standa. Spennandi að hitta Viktoríu á föstudagsmorgnum og sjá hvað hún hefur fram að færa. Síðustu 2 vikur hefur hún aðeins komið með góðar fréttir og lofar að von sé á fleiri slíkum í nánustu framtíð. Eins gott að hún standi við það daman Sé fram á að ég nái markmiðum mínum fyrir árslok. Góðir hlutir gerast hægt og þetta er allt á réttri leið þannig að það er engin ástæða til annars en að halda galvösk áfram. Hef breytt miklu varðandi hugsanagang tengdan mat og það er hluti af þessum góða árangri að mínu mati. Eitt gott dæmi er bakarísferð fyrir nokkrum dögum. Ég æfði í Laugun einn frídaginn, þar sem aðeins var opið á nokkrum WC stöðum. Ekki slæmt að koma þangað endrum og eins og ljúft að skella sér í sund eftir púlið. Mundi á leiðinni heim að það vantaði brauð á heimilið og ég auðvitað sársvöng eftir æfingu og sólbað í sundlauginni. Í stað þess að kaupa brauð og sætabrauð til að hafa með kaffinu greip ég gróft heilkornabrauð og uppáhaldsbrauðið með ólífum úr Mosfellsbakarí til að hafa með heim, Þegar ég kom út í bíl áttaði ég mig á því að ég tók ekki eftir sætabrauðinu.... sem ábyggilega var þarna líka, það stóð ekki til að kaupa neitt slíkt. Aftur á móti greip ég með mér dýrindis kirsuberjasultu til að hafa með ostinum og brauðinu og það var alveg guðdómlega gott..... Þetta er allt í hausnum á okkur, það er bara þannig.
Nú eru vikurnar fjórar með einkaþjálfaranemanum mínum alveg að verða búnar, aðeins tvö skipti eftir með henni. Það verður skrítið að æfa aftur ein en ég hef nú gert það svo lengi þannig að það verður ekki erfitt. Þessar fjórar vikrur hafa liðið alveg ótrúlega hratt og við skemmt okkur vel saman. Hún býr til fyrir mig nýtt kerfi til að fara eftir. Ég ætla reyndar að breyta aðeins um takt miðað við þann sem hef verið í í vetur og fara út að skokka oftar og lyfta sjaldnar. Miða við 2 lyftingaæfingar í viku til að halda vöðvamassanum við og skokka þrisvar eða oftar. Þarf að bæta tímann minn fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst. Spennandi
Öll hreyfingin og mataræðið er að skila sér með betri heilsu. Það fékk ég staðfest í síðustu viku þegar niðustöður úr blóðprufum sýndu svart á hvítu að fimmtuga konan er í góðum málum, fékk mikið hrós frá doksanum. Tölurnar hafa ekki verið svona flottar í mörg ár.....
Fer í mælingu hjá Þjálfaranum á föstudag og þá er von á fleiri góðum fréttum.....
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2012 | 19:35
Nýtt afrek
Síðustu dagar hafa verið annasamir og tíminn flogið. Mikið að gera, bæði heima og í ræktinni og ekki tími til að hvíla sig eftir veturinn. Vonandi kemur að því það er ekki laust við að kjellan sé orðin lúin. Sé samt ekki fram á að geta tekið lífinu með ró næstu dagana.....
Búin að taka nokkrar æfingar með einkaþjálfaranemanum. Það er meiriháttar að hafa einhvern svona frábæran eins og hana sem hugsar fyrir öllu, ég bara mæti og æfi. Gæti auðveldlega orðið háð þessu. Veit alla vega hvert ég hringi þegar sú staða kemur upp að ég geti varið aukakrónum í einkaþjálfun. Veit ekki alveg hvernig þetta verður þegar vikurnar 4 taka enda
Í gær tókum við brekkpressu. Æfing sem ég hef ekki prófað lengi eða ekki síðan ég var í Body Pumpinu í den. Holy Moly hvað það var erfitt, þarf greinilega að æfa þá vöðva betur
Síðasta sunnudag tókum við góða æfingu í WC Laugum. Þar sem ég var búin að mæla mér mót við uppáhaldsfrænkuna í pottinum í Laugardalslaug skellti ég mér í laugina og þar sátum við frænkur í sólinni og spjölluðum. Fín slökun það en eftir tæpa tvo tíma í pottinum var ég orðin vel rauð og ekki laust við að kjötið væri farið að losna af beinunum, en notalegt var það
Hef lítið farið út að skokka síðustu 3 vikur, veit ekki hvers vegna. Skokk er eitt það skemmtilegasta sem ég geri tengt hreyfingu. Dreif mig í dag þrátt fyrir að vera alveg búin á því andlega. Fór stutta hringinn í þetta sinn, Garmin tækið mælir hann sem 6.3. Km. Skipti þessu uppí göngu/skokk, þó fór meira fyrir skokkinu Í ljós kom að gamlan var ekki þreyttari en það að næg orka var afgangs til að skokka upp brekku, ekki eina heldur tvær. Önnur er stutt en hin mun lengri og ég skokkaði þær léttilega báðar. Það var því stolt kerla sem kom heim, full af orku
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2012 | 20:24
Annasöm vika....
en ekki mikið um öfluga hreyfingu. Úr því verður bætt á næstu vikum. Mikið að gera við ritgerðarskrif, skilaði ritgerð nr. 2 á einni viku, þær eru frekar myndarlegar þessar sem maður gerir í M.Ed náminu. Svo þegar einkunnasýki og metnaðargirni á háu stigi koma saman, er ekki við góðu að búast
Er búin að hitta einkaþjálfanemann, sem ætlar að æfa sig á mér. Við náum vel saman og ég fékk að finna hressilega fyrir æfingunni í dag, maður lifandi. Svo teygði hún vel á mér, nokkuð sem maður getur aldrei gert svona vel sjálfur. Ef þið sjáið konu með skrítið göngulag um helgina, þá er það líklega ég með strengjasveit í lærum og rassi......
Þegar maður æfir alltaf einn eins og ég geri er svo gott að fá nýjar æfingar og einhvern sem segir manni hvað maður á að gera. Gæti alveg vanist þessu og ef ég á einhvern tímann eftir að hafa efni á einkaþjálfra í nokkra mánuði þá yrði þessa flotta stelpa fyrir valinu, ekki spurning
Hitti skvísuna aftur á sunnudag og þá í Laugum. Eftir þann tíma ætla ég að taka góða slökun og leggjast í heita pottinn í sundi og liggja þar þangað til kjötið losnar af beinunum. Ég á það svo skilið....
Þegar við ræddum saman á mánudaginn sagði ég henni frá mínum markmiðum varðandi skokk, fitutap og fleira. Æfingaplanið sem hún setur saman fyrir mig tekur á þessu öllu sem er auðvitað frábært. Í dag var ég t.d. látið taka 7 mín interval, hlaup og ganga til skiptis, til að keyra upp bennsluna. Ég prófaði að taka síðustu mínútuna á 11 Km/klst. og vá hvað það er hratt.... mér tókst það en púlsinn fór hátt upp, það á víst að vera hið besta mál..... Spennandi
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2012 | 22:44
Á réttri leið......
fékk það staðfest í síðustu viku að ég væri á réttri leið. Skellti mér í mælingu í uppáhalds stöðinni minni, World Class í Hafnarfirði. Byrjaði átakið á því að fara í mælingu kringum 20. mars. Eftir rúmar 6 vikur höfðu fokið 13 cm og heil 6 % af fitu. Ég veit að þessi fituprósentumæling er umdeild en hún segir mér margt. Síðustu vikur hef ég þyngt umtalsvert lóðin sem ég lyfti miðað við það sem ég hef verið að gera s.l. ár.
Viktoría er enn með stæla, sýnir bara að ég hef þyngst um 1.5. kg eftir að hafa misst rúm 3, en ég veit að það eru vöðvar en ekki spek svo ég er alveg pollróleg. Hún þarf sko að fara að passa sig.....
Byrja á spennandi verkefni á morgun, mánudag þar sem ég samþykkti að vera lokaverkefni fyrir nema í einkaþjálfun og fæ að launum fría einkaþjálfun í einn mánuð. Hlakka mikið til því það var alveg kominn tími á nýtt prógram og vonandi fjúka fleiri cm og enn fleiri fituprósentur Spennandi að sjá árangurinn eftir þrjú skipti í hverri viku í heilar 4 vikur. Ég er tilbúin fyrir puð, púl og góðan árangur. Það þarf víst að vinna fyrir þessu, þessir blessuðu vöðvar þjálfa sig víst ekki sjálfir
Leyfi ykkur að fylgjast með
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2012 | 10:19
Morgunstund gefur gull í mund....
eða þannig....
Þannig var það a.m.k. ekki hjá mér. Ég fór og heilsaði uppá Viktoríu, vinkonu mína á baðherberginu uppúr kl. 7 og sú var í stuði. Hún sýndi allt frá 1.1. kg og uppí 188 kg. glætan, spætan að ég geti tekið mark á þessu bulli. Það var alveg sama hvað ég reyndi að tjónka við hana, hún hélt áfram að rugla. Ég færði hana til á gólfinu, því stundum lætur hún svona ef hún stendur á samskeytum. Nei nei ekkert gerðist. Bara leiðindi... sú þarf að fara að passa sig.......Í alvöru.
Ég var búin að ákveða að fara í ræktina og lyfta og það þurfti ofurkrafta og 3 tonn af þrjósku til að koma mér þangað.Svei mér þá, mér fannst Viktoría hvísla: Fitubolla, þú getur þetta ekki, og sængin gargaði: Komdu til mín. ég er svo mjúk og góð og koddinn bætti í með því að segja:, Ég skal hugga þig .
EN, NEi NEI OG AFTUR NEI... ég klæddi mig og fór í ræktina. Heilsaði upp á vigtina þar og hún sýndi 3 kg fleiri en í síðustu viku. Halló Hafnarfjörður, hvað er í gangi ? Lyfti og djöflaðist í rúman klukkutíma og reyndi að gleyma þessum vigtaraunum, en velti því samt fyrir mér hvað væri að. Ég sem er búin að vera svo dugleg, tók vatnsdrykkjuna í gegn og skrái hjá mér hvert drukkið vatnsglas eða 1 1/2 - 2 1/2 lítra á dag. Labba, skokka, lyfti.... Er ég kannski að breytast í hval, hvað veit ég ?
Fékk svo óstöðvandi hiksta á meðan ég tók plankann og trúið mér, það er ekki þægilegt
Vona bara að minn skammtur af leiðindum sé búin í bili því að ég ætla að gera svo margt skemmtilegt í dag
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)