2.12.2013 | 20:44
Fyrsti áningarstaður
Nú eru rúmir þrír mánuðir síðan ég lagði af stað í þetta ferðalag. Full bjartsýni og baráttuvilja og ekki í boði að gefast upp. Það hefur ekki breyst. Eftir fyrsta áfanga þarf ég samt að sparka duglega í botninn á sjálfri mér. Þetta er ekki hægt Enn er ég hangandi við sama staurinn þegar kemur að hreyfingu og einmitt þegar ég hélt að ég væri búin með allar afsakanir þá fann ég fleiri. Ég fór út að hlaupa, í eitt einasta skipti og síðan ekki söguna meir. Er það í lagi? NEI.
Samt sem áður er mataræðið í góðum gír. Það kom í ljós í reglulegum mælingum með einni undantekingu þó. Það eina sem hægt er að gera í því máli er að HREYFA SIG, það eru engar nýjar fréttir fyrir mig. Nú er tæp vika síðan ég fékk að vita að það er of mikil sykur í blóðinu mínu og ef ég held áfram að sitja á rassinum og sannfæra sjáfa mig um að það sé nægileg hreyfing að labba í og úr strætó er voðinn vís. Vissi að ég væri sæt en ekki alveg svona ..... Kannski verður hægt að hafa mig út á ís næsta sumar
Samt sem áður eru góðir hlutir að gerast. Keypti mér flík í minna númeri en ég hef gert hingaðtil og það var bara góð tilfinning, fyrir utan hvað ég var fín. Þannig að nú er að koma sér úr sporunum, drattast í ræktina/út að labba/skokka/hlaupa.... og halda þessu ferðalagi áfram. Get. Ætla. Skal
Lífstíll | Breytt 3.12.2013 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2013 | 21:43
Að ganga á staðnum....
Ferðalag hefst á einu skrefi. Til þess að komast á leiðarenda þarf að færa hinn fótinn líka, annars stendur maður í sömu sporum, á upphafsreit. Það var ekki meiningin. Síðustu vikur hef ég reynt að sannfæra sjálfa mig um að ég þurfi að finna tíma til að fara í ræktina. Það hefur ekki skilað mér einni einustu ferð þangað. Þvert á móti, að vísu labba ég í og úr strætó, flesta virka daga en það er ekki nóg. Í dag tók ég ákvörðun, ég ætla að hætta þessu rugli og drífa mig út að skokka. Byrja á morgun, ekki spurning. Það er minna mál að reima á sig hlaupaskó og fara í galla þegar heim er komið en pakka niður í tösku að kvöldi og drattast í ræktina eldsnemma eins og ég var vön. Auk þess þykir mér gaman að skokka.
Hreyfingin á að verða umbun. Næstu vikur þarf ég á öllu mínu að halda og þvi verður gott að fara út að skokka eftir stífar lestrartarnir, ritgerðarskrif eða krefjandi vinnudag og hugsa. Ég er ágæt í því. Vonandi verður veðrið og færðin með mér í vetur, ekki veitir af. Er í sömu sporum, svolítið eins og standa við sama ljósastaurinn og óska þess að hann hreyfi sig, sem er ekki aðferðin sem ég ætla að nota, trúið mér. Allt annað gengur að óskum.
Það verður gott að komast úr sporunum og halda áfram, styttist í fyrsta áningarstað.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2013 | 20:02
Að ganga í takt
Það er mikilvægt að ganga í takt. Ekkert ósvipað og við gerðum í leikfimi í gamla daga. Einn tveir, einn tveir.
Takturinn felst í því að fylgja sjálfum sér. Í vor þegar ég velti því fyrir mér hvað hægt væri að gera við þessa bloggsíðu var mér bent á það af góðri konu að það væri mikilvægt að ganga í takt við sjálfan sig. Síðustu vikur hef ég unnið markvisst að því að bæta heilsuna og byrjaði á matnum. Fann til þess leið sem virkar fyrir mig og kannski einhverja fleiri, hver, veit Það er skemmst frá því að segja að þessi breyting á mataræði og skammtastærðum er farin að sýna árangur. Vigtin sýnir lægri tölur og fötin fara betur, eru ekki eins þröng og þau voru. Það sem er allra best er að orkan er mun meiri en ég er vön. Það eitt er alveg dásamlegt
Vinn nú í því að setja mér markmið. Þar sem þessi vegferð er hugsuð sem ferðalag er ágætt að sjá fyrir sér hvar hægt er að koma við á leið á ákvörðunarstað. Meiningin er að smá umbun fáist við hvern áfangastað. Meira um það seinna
Það dugir ekki að drolla. Næst er að huga að daglegri hreyfingu. Það gengur ekki jafnvel að finna tíma fyrir ræktina og útiskokkið en nú þegar matarmálin eru komin vel af stað og sýna að rétt er að málum staðið þá er komið að því að takast á við næstu áskorun..... nefninlega að búa til tíma ,
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2013 | 19:47
Eitt skref í einu
Síðasta vika gekk vel. Ég er að þreifa fyrir mér varðandi skammtastærðir og hlutföll og tel
mig vera á réttri leið. Setti mér það markmið að borða meira grænmeti eftir að hafa lesið bók Michael Pollan Mataræði. Hann mælir með því að við breytum hlutföllum og höfum grænfóðrið sem uppistöðu en kjöt og fisk/kolvetni sem meðlæti. Ég tók hann á orðinu og finn hvað þessi hlutföll henta mér betur og þá sem aukin orka og vellíðan. Einmitt það sem ég þarf á að halda.
Hvað gerir grænmetið svona gott? M. Pollan bendir á að vísindamenn séu ekki sammála um
hvaða þættir gera grænmetið svona hollt. Víst er að það er fleytifullt af góðum efnum líkt og trefjum ásamt góðum fitusýrum og svínvirka sem andoxun. Ekki verra að það inniheldur fáar hitaeiningar en góða næringu. Trefjarnar hjálpa með því að vera lengi að fara í gegnum kerfið og þannig erum við södd lengur og því minni hætta á óhollu narti. Þær virka líka sem kústur í ristlinum og hjálpa til við
hreinsun líkamans, en til þess að það virki rétt er mikilvægt að drekka vel af vatni. Þetta er ekkert flókið, er það nokkuð?
Nú eru búðir smekkfullar af góðu fersku grænmeti. Það er því lítið mál að elda góða og holla rétti. Með hjálp uppskrifta af netinu, matreiðslubóka og tímarita ætti þetta ekki að vera flókið. Svo er til fjölbreytt
úrval af frosnu grænmeti. Eitt af mínu uppáhalds af því tagi er grænn spergill, (fæst frosinn í Víði) steiktur á pönnu með tómötum í litlum bitum og smá skvettu af balsamikediki. Svartur pipar úr kvörn og nokkrar flögur af Maldonsalti. Skora á ykkur að prófa.
Svona getur minn diskur litið út
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2013 | 20:24
Hinn gullni meðalvegur
Hvað skiptir mestu máli þegar kemur að mataræði? Eru það lágkolvetnakúrar, Atkins eða eitthvað allt annað? Held ekki, öfgar af því tagi eru ekki minn tebolli.
Síðasta vika fór í að jafna sig eftir 10 km skokkið og finna nýjan takt í mataræðinu. Vikuna fyir hlaupið nýtti ég til að hlaða kroppinn af góðri orku til að hjálpa honum að takast á við átökin. Það kom sér vel, hjálpaði mér að komast í mark og jafna mig fljótt og vel.
Nýlega opnaði Háma nýtt mötuneyti í Stakkahlíðinni, þar sem ég vinn og stunda nám. Fyrir var einkaaðili sem seldi mat sem flokkast víst seint sem hollusta. Úrvalið í Hámu er mun fjölbreyttara og betri matur í boði. Sé það nú samt fyrir mér að seðlaveskið mitt myndi tæmast fljótt ef ég kaupi alla mína næringu þá daga sem ég er í vinnu/skóla. Þess vegna mun ég halda áfram að taka með mér nesti en til þess að gera mér dagamun er meiningin að kaupa salat eða aðra holla rétti á föstudögum. Það mun væntanlega æfa mig í því að velja alltaf hollasta kostinn sem í boði er.
Lífið er ekki eintóm kálblöð og gulrætur. Ég geri mér fulla grein fyrir því að freistingar verða á vegi mínum og það sem meira er, ég hef ákveðið hvernig ég mun takast á við þær. Það er tvennt í boði, annars vegar að afþakka pent og hins vegar, að þiggja einn lítinn bita og njóta hans. Þannig tel ég best að takst á við hlutina, pínulítill skammtur skaðar ekki. Galdurinn felst í skammtastærðum og velja rétt.
Þessi ferð er ekki hugsuð sem píslarganga heldur skemmtiferð sem leiðir til betra og léttara lífs.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2013 | 13:31
Viðmið
Til þess að geta mælt árangur þarf að hafa viðmið líkt og tíma, styrk og léttari kropp. Þó svo að vigtin sé ekki besta viðmiðið m.t.t. ólíkrar þyngdar vöðvamassa og fitu þá ætla ég samt að hafa það með. Ég stefni á ákveðna eigin þyngd.
Gærdagurinn var upphafsdagur, ég mæli út frá honum og miða svo við Reykjavíkurmaraþon 2014. Þá er meiningin að skokka aftur sömu vegalengd, væntanlega á betri tíma, vera mun léttari og líta betur út. Í gær skokkaði ég á tímanum 1.29.58, var 87.1 kg og svona kemur myndin út:
Hvatning dagsins er í boði yngri sonarins, sem 21 árs, setti sér það markmið um síðustu áramót að hlaupa heilt maraþon, sem hann og gerði í gær. Ástæðan var sú að hann var orðinn of þungur, reykti og var langt frá því að vera sáttur við ástandið. Hann breytti sínum venjum og uppskar eftir því.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2013 | 18:06
Næsta skref..
Ferðalagið er formlega hafið. Næsta skref er að skokka 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu laugardaginn 24. ágúst, sem er jafnframt brúðkaupsafmæli okkar hjóna. Sá dagur verður líka ákveðinn upphafspunktur, því ég miða við að hann sé formlegur fyrsti dagur og Maraþonið 2014 verði lokadagurinn. Hversu langt ég skokka þá kemur í ljós síðar. Þetta er í þriðja skiptið sem ég skokka 10 km í þessu hlaupi og mig er farið að langa til að takast á við 21 km. Kannski á næsta ári, sjáum til
Ég skokkaði 10 km hér heima í Garðabænum í gær. Fór reyndar sömu vegalengd laugardaginn fyrir viku síðan. Ég hef skokkað styttri vegalengdir eða 3-9 km í sumar. Í stuttu máli sagt tókst mér að bæta tímann í 10 km um 3 mínútur frá vikunni áður. Ég fer nú ekki hratt yfir en þetta var samt sem áður ágætis hvatning. Fann að ég náði að skokka lengri spotta og fór aðeins hraðar yfir, ekki annað hægt þegar Páll Óskar og fleiri flottir hvetja mann áfram með góðri tónlist
Næsta vika fer í að næra kroppinn vel fyrir skokkið á laugardag
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2013 | 18:46
Fyrsta skrefið.....
Ferðalag hefst á einu skrefi, því fyrsta. Algjörlega óháð vegalengd og tíma. Það á einnig við um fyrirhugað ferðalag mitt.
Eftir að hafa barist við sykurpúkann og vigtina í 20 ár hef ég ákveðið að taka stóra skrefið og komast í gott form. Í eitt skipti fyrir öll. Ekki misskilja mig, ég hef svo sannarlega reynt, oft og stundum gengið sæmilega en alltaf fallið í sama farið aftur. Mér þykir gaman að hreyfa mig, var fastur gestur í ræktinni og svo skokka ég mér til ánægju og heilsubótar.
Maturinn er málið. Mér finnst fátt skemmtilegra en að elda góðan mat, borða hann og skoða/tala um spennandi uppskriftir. Næringarfræði er líka eitt af mínum helstu áhugamálum ásamt hreyfingu. Hvernig stendur þá á því að ég er of þung? Góð spurning og það sem meira er, ég veit svarið.
Ég hef því ákveðið að leggja upp í ferðalag, sem mun standa í eitt ár. Markmiðið er að komast í gott form með þvi að læra að borða rétt og hreyfa mig oftar og meira en ég hef gert s.l. ár. Til þess að þetta geti orðið að veruleika þarf ég mikið og reglulegt aðhald. Það tel ég mig fá með því að blogga um markmiðin og hvernig ég ætla að komast á leiðarenda.
Þetta er ekki skyndiákvörðun, hef hugsað þetta lengi og ákvað að leggja af stað.... Þetta verður ekki auðvelt en með hjálp góðra manna mun mér takast að komast á leiðarenda.
Get, ætla, skal
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2013 | 14:00
Ostakökur og flottar konur
Ég er svo ljónheppin að vera í skemmtilegum kökuklúbb með frábærum konum. Þegar mér var boðið í kúbbinn, fyrir um það bili ári síðan, þekkti ég eina vel, kannaðast við aðra og kynnist þeirri þriðju. Siðan höfum við boðið fleiri flottum konum í hópinn. Til þess að fá inngöngu þarf viðkomandi að kunna eða hafa áhuga á að læra að baka ameríska ostaköku. Fundirnir ganga út á að bjóða heim í köku og kaffi/te og oftar en ekki skemmtilegt spjall. Stundum er þema, kjólar og hattar eða meðlimir lesa eitthvað skemmtilegt, sögur eða ljóð t.d. eftir konur í tilefni konudags. Ýmsir siðir tengjast þessum boðum, sem ekki verða nefndir hér
Klúbburinn hittist nokkrum sinnum á ári og borðar saman ostaköku. Nú er komið að mér, í annað sinn. Í næstu viku komum við saman og gæðum okkur á ljúffengri ostaköku, ég er búin að velja mér uppskrift úr smiðju uppáhalds veitingastaðarins í Boston, en hún er að sjálfsögðu leyndarmál þangað til dömurnar mæta í boðið. Hið hin bíðið bara spennt
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2013 | 19:20
Nýjar áherslur
Þessa önnina hef ég hvílt þetta blogg, ekki síst vegna þess að ég vissi ekki almennilega hvernig best væri að nýta það, svona efnislega séð. Tilgangurinn er augljós, að halda áfram að æfa mig í ritun texta og prófa nýja nálgun og áherslur. Mig langar að breyta um stefnu og takast á við ný efnistök sem munu tengjast helstu áhugamálum mínum, sem eru matargerð og næringarfræði ásamt fleiru skemmtilegu tengdu vinnunni minni. Ekkert er ákveðið hversu tíðir eða langir pistlarnir verða, það fer algjörlega eftir innblæstri og hugmyndaflugi. Hvort einhver les þetta er algjört aukaatriði, en ef svo skemmtilega vill til að einhverjir leggja í að lesa þá væri gaman að fá viðbrögð
Nýlega lauk ég áhugaverðu og gífurlega ánægjulegu námskeiði, sem kallast Matur og menning, í HÍ. Eitt af verkefnunum þar var að halda matardagbók, útfærslan var frjáls. Ég tók þá stefnu að hafa þetta nokkurs konar matarblogg og aldrei að vita nema ég skelli inn einni færslu eða svo, sem sprottin er upp úr þeim pælingum.
Við sjáum svo bara til hvernig þetta þróast í sumar...
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)