2.1.2013 | 13:25
Nú árið er liðið....
í aldanna skaut.....
Ég er ekki ein af þeim sem tárfella um áramót. Þvert á móti, ég tek nýju ári fagnandi. Lít á þessi merku tímamót sem tækifæri til að bæta mig og lagfæra það sem ég er fær um. Nýtt ár er upphaf að betra lífi og ég stjórna því sem ég get en læt æðri máttarvöld og englana mína um allt hitt. Sumu ráðum við ekki, það er bara þannig og nauðsynlegt að hafa það á bak við eyrað. Það er einnig hollt að hafa það í huga að stundum eru breytingar til batnaðar, það hef ég reynt s.l. ár og allt gott um það að segja. Stundum er lífið erfitt og skítt en þá er mikilvægt að skoða allt það góða sem við höfum og kunna að meta það
Það er einmitt orðið Þakklæti sem er mér efst í huga þessa dagana. Í kringum mig er frábært fólk. Maðurinn minn, sem er einstakur. Fjölskyldur okkar, gamlir, góðir og traustir vinir og frábærir vinnufélagar í ritverinu á menntavísindasviði í H.Í. Allt þetta fólk er dýrmætt og ég hugsa um það á hverjum degi hvað ég er heppin að þekkja þau öll. Á síðasta ári bættust enn fleiri í hópinn þegar við hjónin tengdumst skemmtilegum félögum í vélhjólaklúbbnum Landvættir og mökum þeirra
Það sem gerðist á síðasta ári er í stuttu máli eftirfarandi: Ég fékk vinnu, sem var virkilega kærkomið eftir atvinnuleysi í 18 mánuði. Í haust bættist svo við frekari ábyrgð og meiri vinna m.a. við kennslu, nokkuð sem ég kann vel að meta og hlakka til að halda áfram. Strákarnir okkar kláruðu báðir stúdentspróf, annar í vor, hinn núna skömmu fyrir jól og ég er svo endalaust stolt af þeim. Ég smitaðist af vélhjólabakteríunni og prófaði í fyrsta sinn að sitja aftan á hjá bóndanum, sem hnakkaskraut. Góð vinkona var svo sæt að lána mér hjálm og galla, sem ég hafði ekki náð að eignast og gaf mér tækifæri til að vera með. Fyrstu ferðirnar voru farnar um Hvítasunnuna, stutt hjólaferð um Vatnsleysuströndina og Grindavík og mótorhjólamessan í Digraneskirkju degi síðar. Fleiri ferðir voru farnar og nú bíð ég eins og allir hinir eftir vorinu svo hægt verði að fara fleiri skemmtilegar ferðir. Hef nú þegar eignast buxur og hjálm, það sem upp á vantar kemur síðar Sjálft mótorhjólaprófið verður tekið seinna. Ég komst að því að ég verð víst ekki fullgild mótorhjólagella fyrr en það verður tekið. En það er ekki á dagskrá alveg á næstunni
Síðustu tvö ár hef ég leikið mér að því að stíga út fyrir rammann og gera það sem hefur reynst erfitt en þroskandi. Í stuttu máli sagt hefur það gengið mjög vel. Nú er komið að einu slíku verkefni. Ég velti því fyrir mér hvort ég á að deila með ykkur því sem til stendur, ætla að hugsa það aðeins betur. Meira um það síðar
Gleðilegt ár, ekki gleyma að þakka fyrir það sem við höfum. Hamingjan flest ekki í því að fá allt sem við viljum heldur að vilja það sem við fáum og kunna að meta það
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.