Lífsreynslan mótar okkur....

og gerir okkur að því sem við erum.  Það er mín skoðun. Að sjálfsögðu erum við misjöfn og sumir læra hraðar og betur en aðrir Wink

Fyrir atvinnuleitendur er mikilvægt að stefna að einhverju mikilvægu á meðan atvinnuleitinni stendur og ekki verra ef hægt er halda hvoru tveggja til streitu. Ef við tökum líkamsrækt sem dæmi þá er auðvelt að setja sér ný markmið þegar öðrum er náð Grin

Þessi rúmi frítími sem atvinnuleitendur hafa yfir að ráða fer að sjálfsögðu í atvinnuleitina sjálfa og jafnvel námskeið og umönnun heimilisfólks. Það er líka hægt að nýta ákveðinn tíma á hverjum degi til að vinna verk sem hafa setið á hakanum. Það má t.d. fara í gegnum það sem þarf að flokka og henda á heimilinu, flokka gamlar myndir og allt það sem hefur ekki verið hægt sökum tímaskorts þegar viðkomandi var í vinnu.

Dagleg rútína er mikilvæg og það að fara á fætur, þó ekkert ákveðið verkefni  bíði getur verið erfitt, mjög erfitt.Trúið mér.  Ekki síst um dimman vetur þegar kaldir vindar blása og rigning eða slydda lemja rúðurnar. Þá er nú huggulegra að faðma koddann sinn og vefja sig betur inní sængina Crying Eðlilega.

Á námskeiðinu Nýttu kraftinn, sem tvær eðalkonur stjórna, ætlað atvinnuleitendum, var okkur kennt að koma okkur upp  mynstri, a.m.k. 4 klukkustundir daglega þar sem ákveðnum fyrirfram plönuðum verkefnum er sinnt. Atvinnuleitin er þar að sjálfsögðu fyrirferðarmikil s.s. gerð ferilskrár og fl. en það má líka gera ýmislegt skemmtilegt við tímann sinn.  Þá er tækifærið að gera það sem okkur hefur lengi langað að gera en ekki haft tíma til.

Fyrir áhugasama bendi ég á heimasíðuna www.nyttukraftinn.is  

Ég valdi að taka líkamsræktina föstum tökum, ekki síst vegna þess að ég þráði að ná árangri og nú fékk ég tækifæri til að stunda hana alla virka daga og oftar en ekki líka á laugardögum. Ég hafði svo sem verið í ræktinni áður en tekið þetta meira í törnum eins og svo margir aðrir og verið fastur áskrifandi á líkamsræktarstöð án þess að nýta mér aðstöðuna. Hver þekkir það ekki Whistling

 Með tímanum fór ég að leggja meira á mig og þegar góð kona benti mér á að líklega þyrfti ég að skokka til að ná betri árangri þegar ég var ósátt við árangurinn varðandi fitutap, tók ég hana á orðinu. Þetta byrjaði rólega, skórnir mínir voru ekki nægilega góðir svo ég fjárfesti í nýjum og þá gat ég skokkað lengur. Ég tók þetta í lotum til að byrja með, skokkaði í 1-2 mínútur og gekk í 5 mínútur. Svona æfingar tók ég í 20-30 mínútur á hlaupabrettinu, meðfram því að lyfta lóðum. Þegar voraði fór ég að fara út að skokka, byrjaði mjög rólega því það er töluverður munur á því að skokka inni á stöð á mjúku bretti og skokka úti á malbikuðum göngustígum. Góðir skór eru nauðsynlegir og að sjálfsögðu notar maður ekki sömu skó og notaðir eru í ræktinni Shocking

Fyrsta almenningshlaupið var  Kvennahlaupið í Mosó í byrjun júní þar sem ég kom sjálfri mér  á óvart og skokkaði megnið af leiðinni eða 5 km. Þá kom  miðnæturhlaupið í Laugardalnum nokkrum vikum síðar, ég skokkaði 5 km  og þá var ekki aftur snúið Cool  Ég setti mér það markmið að fara 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu, sem ég gerði s.l. laugardag.  Það var stolt og ánægð hlaupakerla sem skokkaði og gekk 1o km og naut hverrar mínútu.  Sumarið hef ég nýtt vel í að æfa fyrir hlaupið og ætla mér að halda áfram því það verða fleiri hlaup næsta sumar og ný markmið hafa litið dagsins ljós. Næsta sumar  er meiningin að bæta tímana, bæði í 5  og 10 km Wink

Bara það að byrja að skokka á brettinu hefur kennt mér að ég get allt sem ég vil og á þessu tæpa ári sem liðið er frá því að ég byrjaði markvisst að nýta tímann minn og byggja mig upp hef ég lokið við nokkur verkefni sem ég  hafði ýtt frá mér lengi og tekist á við draug sem fylgdi mér. Meira um það síðar. 

Það er allt hægt, við þurfum bara að vilja, þora og geta eða eins og ég segi stundum að taka þetta á gæsinni. Get Ætla Skal InLove


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband