18.8.2011 | 21:50
Að bogna en bresta ekki ....
Ég hef verið atvinnuleitandi í rúm 2 ár, fékk reyndar afleysingastarf í 9 mánuði en hef verið án atvinnu samfellt s.l. 14 mánuði. Hvers vegna er ég að segja frá þessu, jú það er ástæða fyrir því. Oftar en ekki mæti ég fordómum og skilningsleysi meðal samferðarmanna og vegna þess að ég er jákvæð að eðlisfari hefur það valdið misskilningi. Fólk heldur að ég sé bara svona ánægð með stöðu mína og þess vegna sé ég ekki döpur, neikvæð eða svartsýn
Ég fór seint í Háskólanám en lauk því skömmu áður en hið margumrædda hrun breytti umhverfi okkar og þ.á.m. mínu vinnulega séð. Trúið mér ég hef leitað að vinnu og sótt um fleira en það sem tengist beint minni menntun en enn hef ég ekki komist í eitt einasta viðtal og það tekur á taugarnar. Það getur verið mjög erfitt að fá hverja neitunina á fætur annarri og stundum er það beinlínis kvíðaefni að opna tölvupóstinn. Það eru einfaldlega svo ótalmargir um hvert starf sem auglýst er
En ég er svo óendanlega heppin, á yndislegan eiginmann og syni ásamt fullt af góðum vinum og öðrum skyldmennum sem er svo gott að vera með. Ég hef líka sótt tvö framúrskarandi námskeið þar sem ég kynntist úrvalsfólki sem er og var í sömu stöðu og ég og saman tökumst við á lífið sem atvinnuleitendur.
Þá hef ég stundað líkamsrækt og ögrað sjálfri mér m.a. með því að framkvæma og stunda það sem ég hélt að ég gæti ekki gert og haft mikla ánægju af... nefninlega að skokka úti. Meira um það síðar.
Í haust byrja ég í framhaldsnámi á mínu sviði, sem mun ljúka með M.Ed. gráðu,eftir ca 3 ár. Þegar því lýkur vantar mig bara 3 háskólagráður í viðbót til að ná Georg Bjarnfreðarsyni með sínar 5 (smá grín)
Ég hlakka mikið til þess að setjast aftur á skólabekk með góðri vinkonu úr grunnnáminu, spá og spekúlera með samnemendum og úrvalskennurum af Menntavísindasviði HÍ. Ég var svo heppin að fá að taka þátt í úrvalsátaki Vinnumálastofnunar sem kallast Nám er vinnandi vegur og er til fyrirmyndar. Flott framtak hjá þeirri stofnun, sem þrátt fyrir allt á stundum góða spretti....
Atvinnuleitendur upplifa höfnun og neitun oft mjög serkt og því mikilvægt að taka einn dag í einu og þegar dagarnir verða dimmir þá er gott ráð að fara út og hreyfa sig, skreppa kannski á bókasafnið eða það sem mér finnst alltaf skemmtilegast, á kaffihús og skoða blöð og bækur. Góður te- eða kaffibolli gerir kraftaverk.... Stundum koma dagar sem ég eyði fyrir framan sjónvarpið eða les góða bók, sem er bara allt í lagi.
Þegar mér líður ekki vel og á slæma daga, sem er ekki oft, tala ég um að Pollýanna vinkona mín, hafi farið að heiman. En það er allt í góðu því hún kemur alltaf heim aftur, þessi elska
Ef þú, lesandi góður, þekkir einhvern sem er atvinnuleitandi og hefur verið það lengi hafðu þá í huga orð Einars Ben, aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þú gætir hitt á góðan dag hjá viðkomandi og gert hann enn betri en þú gætir líka hitt á viðkvæma stund og komið af stað skriðu af slæmum dögum þar sem sjálfstraustið yfirgefur viðkomandi um stund. Umfram allt ekki minnast á öll störfin sem auglýst eru og haltu sögunum um alla Jóna og Gunnur sem hafa fengið fyrsta starfið sem þau sóttu um fyrir þig. Það eru einmitt þannig sögur sem við höfum ekki áhuga á að heyra þegar okkur gengur sjálfum seint og ílla að fá vinnu. Það koma dagar þegar við samgleðjumst öllum þeim sem hafa fengið vinnu, sei sei já
Ég trúi því og treysti að einn góðan dag fái ég vinnu og það verður án efa það starf sem hefur verið mér ætlað og þá verð ég tilbúin, full af eldmóði, jákvæðni og umfram allt við góða heilsu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.